Harvard Business School hefur gert greiningarskýrslu (case study) um Róbert Wessman, forstjóra Actavis og fyrirtækið Actavis, en þetta í fyrsta sinn sem íslenskur stjórnandi er sérstakt viðfangsefni slíkrar skýrslu hjá skólanum. Skýrslan, sem ber titilinn „Robert Wessman and Actavis´ „winning formula““ verður nú gefin út og gerð aðgengileg fyrir viðskiptaháskóla víðs vegar um heiminn. Róbert var viðstaddur kennslustund í Harvard þar sem kennsluefnið var stjórnunarstíll hans og velgengni Actavis.

Þegar Róbert tók við stjórnartaumunum hjá Actavis árið 1999 störfuðu um 100 manns hjá fyrirtækinu, allir á Íslandi. Í árslok 2007 voru starfsmenn orðnir yfir 11.000 í 40 löndum.

„Það er mikill heiður fyrir Actavis og fyrir mig persónulega að fá að vera hluti af námsefninu í einum allra virtasta viðskiptaháskóla heims. Þau voru mjög áhugasöm og spurðu mikið, um stjórnunarstílinn og fleira. Þetta var virkilega skemmtilegt“ sagði Robert Wessman.

Daniel Isenberg, lektor í viðskiptafræði við Harvard, sagði „Actavis hefur breyst úr litlu innanlandsfyrirtæki í eitt af leiðandi fyrirtækjunum á sínu sviði í heiminum á 7 árum. Það er afrek sem er mjög óvenjulegt, svo ekki sé nú fastar að orði kveðið, ekki síst þegar haft er í huga hversu gríðarlega hörð samkeppnin í samheitalyfjageiranum er. Sú staðreynd að Actavis hefur á sama tíma alþjóðavætt aðfangakeðjuna, markaðina, rannsóknirnar og þróunina og að hluta til stjórnunina, er árangur sem talar sínu máli.“