Viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík er í hópi 50 bestu viðskiptaháskóla/deilda í V-Evrópu.

Þetta er niðurstaða nýrrar alþjóðlegrar úttektar á bestu viðskiptaháskólum heims. Eduniversal, sem er óháð stofnun, stóð fyrir þessari úttekt, sem staðið hefur yfir síðan í október 2007.

Þetta kemur fram á vef HR.

Tólf manna sérfræðinefnd valdi 1000 skóla í lokaúrtakið eftir að hafa farið yfir um 4000 viðskiptaháskóla og –deildir og beitt fjölmörgum ólíkum viðmiðum og var viðskiptadeild HR eina íslenska deildin sem var valin í lokaúrtakið.

Lokaniðurstöðurnar urðu þær að viðskiptadeild HR varð í 46. sæti í Vestur-Evrópu og 117. sæti í heiminum (á 1000 skóla listanum voru t.d. yfir 150 skólar í BNA).

Samkvæmt upplýsingum frá Háskólanum í Reykjavík voru forsetar þessara deilda/viðskiptaháskóla beðnir um að nefna þá skóla af þessum 1000 sem þeir gætu mælt með við nemendur sína.

Um fjórðungur forsetanna (24,9%) nefndu viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík.

Hér má sjá lista yfir 100 bestu viðskiptaháskóla og deildir V-Evrópu