Íslensku viðskiptaenglasamtökin Iceland Angels fagna komu Viðskiptasmiðjunnar. Viðskiptasmiðjan er hraðbraut nýrra fyrirtækja sem gefur frumkvöðlum kleift að stofna fyrirtæki, þróa það og prófa með aðstoð leiðbeinenda, ráðgjafa og ráðgjafarstjórna sem hafa mikla reynslu af resktri sprotafyrirtækja og víðtæka viðskiptaþekkingu. Viðskiptasmiðjan er fyrir þá sem hafa verið að móta viðskiptahugmynd en vilja gera þá hugmynd að veruleika eða fyrir nýlega stofnuð fyrirtæki sem vilja endurskoða viðskiptamódelið og stefna á hraðari vöxt.

Í tilkynningu vegna þessa segir: „Það er gríðarlega mikilvægt að ný og öflugri fyrirtæki  verði til á Íslandi. Íslenskir viðskiptaenglar fagna því að með tilkomu Viðskiptasmiðju Klaks og Háskólans í Reykjavík er hægt að auka fagmennsku á fyrstu skrefum fyrirtækja“ segir talsmaður íslensku englasamtakanna, Dr. Eggert Claessen. Eggert bætir við að það er mikilvægt að „topp fólk komi að því að móta ný fyrirtæki og hjálpa til við virðissköpun. Viðskiptasmiðjan verður mikilvægur vettvangur fyrir íslenska viðskiptaengla til að fylgjast með nýsköpun og sprotafyrirtækjum og í raun er verið að gera líf fjárfesta mun auðveldara en ella þar sem frumkvöðlarnir verða trúverðugri í þessu ferli. Að mínu mati er gott þróunar og prófunarferli eins og það sem Viðskiptasmiðjan bíður upp á afar verðmætt bæði fyrir frumkvöðla og fjárfesta.“

Íslensku englasamtökin Iceland Angels hófu starfsemi fyrr á árinu og eru nú sex sprotafyrirtæki í leit að fjármagni búin að skrá sig hjá samtökunum. Talsvert hefur verið unnið í því hjá Iceland Angels að skapa tengsl við erlend englanet en í því samstarfi sem Iceland Angels er núna eru +400 englanet og +8000 alþjóðlegir viðskiptaenglar. Nú þegar hefur verið prófað að leita á fjörur erlenda viðskiptaengla til þess að fjárfesta í íslenskum sprotafyrirtækjum. Uppbygging Iceland Angels er í höndum Klaks – Nýsköpunarmiðstöðvar atvinnulífsins.