Viðskiptahalli Bandaríkjanna í maímánuði jókst um 2,3% upp í 60,04 milljarða Bandaríkjadala frá því í apríl, þegar hallinn nam 58,67 milljörðum dala. Þetta kemur fram í hagtölum viðskiptaráðuneytis Bandaríkjanna, en aukningin var í samræmi við spár hagfræðinga á Wall Street samkvæmt skoðanakönnun sem Dow Jones fréttastofan gerði á meðal 27 hagfræðinga.

Sérfræðingar segja þó að enn sé mikil eftirspurn eftir bandarískum vörum á heimsvísu sökum öflugs hagvaxtar í alþjóðahagkerfinu. Það er búist við því að aukning í milliríkjaviðskiptum Bandaríkjanna muni eiga sinn þátt í góðum hagvaxtartölum fyrir annan ársfjórðung á árinu, en þær tölur munu birtast 30. júlí næstkomandi.