Viðskiptahalli bandaríska hagkerfisins jókst á þriðja ársfjórðungi og nam 167,4 milljörðum dollara á tímabilinu sem er um 5,6% af landsframleiðslu. Hallinn á bandaríska þjóðarbúinu hefur aukist á árinu og nam samtals 476,3 milljörðum dollara á fyrstu þremur fjórðungum ársins. Til samanburðar nam hallinn 403,7 milljörðum dollara yfir sama tímabil í fyrra. Vaxandi halli á utanríkisviðskiptum Bandaríkjanna er helsta ástæða þess að gengi dollarans hefur gefið verulega eftir að undanförnu og lækkað gagnvart helstu myntum segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Þar segir ennfremur að sérfræðingar hafi spáð að jafnaði 170,6 milljarða dollara halla á þriðja ársfjórðungi samkvæmt könnun Bloomberg og því má segja að niðurstaðan hafi verið betri en reiknað var með. Gengi dollara hækkaði í kjölfar þessara tíðinda og jákvæðra frétta af vinnumarkaði og af framleiðslugeiranum.