Viðskiptahalli Bretlands minnkaði milli mánaða í október og hefur ekki verið minni í sjö mánuði, segir í frétt Dow Jones.

Viðskiptahallinn í október nam 6,3 milljörðum punda, eða 854 milljörðum króna, en var 6,7 milljarðar punda (908 milljarðar króna) í september. Viðskiptahalli Bretlands var síðast minni í apríl 2005, en þá var hann 6,1 milljarður punda (826 milljarðar króna).

Viðskiptahallinn var undir væntingum greiningaraðila sem spáðu 6,6 milljarða punda halla.

Viðskiptahallinn gagnvart Evrópusambandinu dróst verulega saman, eða úr 2,9 milljörðum punda í september, niður í 2,4 milljarða punda. Innflutningur frá Evrópusambandinu minnkaði um 400 milljónir punda á milli mánuða, en útflutningur jókst um 100 milljónir punda.