Viðskiptahalli í Bandaríkjunum varð meiri í nóvember en gert hafði verið ráð fyrir. Hallinn nam 63,1 milljarði Bandaríkjadala og jókst verulega, eða um 9,3%, miðað við októbermánuð þegar hann stóð í 57,8 milljörðum dollara. Meðaltalsspár höfðu hljóðað upp á 59,5 milljarða dollara. Þetta kemur fram í hálffimm fréttum Kaupþings í gær.

Innflutningur jókst um þrjú prósent í 205,4 milljarða dollara, sem endurspeglast fyrst og fremst í auknum innflutningi á eldsneyti þar sem meðalverð fór upp í sögulegt hámark eða 79,65 dollara á tunnu. Aukin eftirspurn eftir hráolíu skýrir tvo þriðju hluta þeirrar hækkunar sem varð á milli mánaða.

Útflutningur í nóvember nam 142,3 milljörðum dollara sem var 0,4% aukning milli mánaða og hefur nú hækkað níu mánuði í röð. Sala á bifreiðum, bílavarahlutum og svartolíu jókst segir í hálffimm fréttum Kaupþings.