Viðskiptahalli var 91 ma.kr. á síðasta fjórðungi ársins saman¬borið við 29 ma.kr. á þriðja ársfjórðungi. Meginskýring lakari viðskipta-jafnaðar er að jöfnuður þáttatekna versnaði um 68 ma.kr. Það skýrist af talsverðum samdrætti í ávöxtun hlutafjár, að mestu í formi neikvæðrar endurfjárfestingar, en á móti vega hærri vaxta-tekjur af skuldabréfum. Á gjaldahlið vega hærri vaxtagjöld nokkurn veginn upp minni ávöxtun erlendra aðila af hlutabréfum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Seðlabankanum.

Þar segir að þjónustujöfnuður var neikvæður um 16,4 ma.kr. á síðasta ársfjórðungi samanborið við 4 ma.kr. ársfjórðunginn á undan. Aukinn kostnaður við ferðalög Íslendinga erlendis og árstíðar¬sveifla í komum erlendra ferðamanna hingað til lands virðist skýra stóran hluta þessarar breytingar.

Viðskiptahalli 200 milljarðar árið 2007

Hreint fjárinnstreymi nam 100,5 ma.kr. á fjórða ársfjórðungi sem er talsvert meira en á þriðja fjórðungi ársins en þá var innstreymið 62 ma.kr. Helstu ástæður þess eru verulegur samdráttur í beinni fjárfestingu erlendis sem nam um 226 ma.kr. Fjárfesting í erlendum verðbréfum jókst verulega en var þó að hluta vegin upp af samdrætti í fjárfestingu innlendra verðbréfa.

Viðskiptahalli á síðasta ári var um 200 ma.kr. en árið 2006 mældist hann 296 ma.kr. Batann má að stórum hluta til rekja til minni vöruskiptahalla, en hann var um 88 ma.kr. samanborið við 156,5 ma.kr. halla árið 2006.

Samkvæmt bráðabirgðatölum hefur viðskiptahalli liðins árs verið 15,8% af vergri landsframleiðslu (25,5% árið 2006) en í síðustu þjóðhagsspá Seðlabankans var áætlað að hann yrði 18%.

Hrein staða við útlönd var neikvæð um 1.845 ma.kr. í lok ársins og hafði versnað um 492 ma.kr. á fjórðungnum. Erlendar skamm¬tíma-skuldir hækkuðu um 523 ma.kr. á fjórðungnum. Staða lang¬tímalána hækkaði um 219 ma.kr. Í lok árs var gengi krónunnar 2,08% lægra en í lok september samkvæmt vísitölu gengisskráningar.