Á fyrstu níu mánuðum ársins var viðskiptahallinn við útlönd alls 106,3 milljarðar króna, eða nær 57 milljörðum meiri en á sama tíma í fyrra. Þetta er samkvæmt bráðabirgðauppgjöri Seðlabankans.

Á þriðja ársfjórðungi var 41,3 milljarða króna halli á viðskiptum við útlönd en á sama tímabili í fyrra var viðskiptahallinn 12,7 milljarðar króna. Á fyrstu níu mánuðum ársins var hallinn 106,3 milljarðar króna samanborið við 49,4 milljarða króna á sama tímabili í fyrra.

Í frétt fráSeðlabankanum segir að útflutningur vöru og þjónustu hafi verið 8,3% meiri á fyrstu níu mánuðum 2005 og innflutningur var um 33,6% meiri en á sama tímabili í fyrra reiknað á föstu gengi . Vöruskiptahallinn við útlönd var 70,6 milljarðar króna og hallinn á þjónustujöfnuði 22,3 milljarðar króna á fyrstu níu mánuðum ársins. Jöfnuður þáttatekna (laun, vextir og arður af fjárfestingu) var neikvæður um 12,3 milljarða króna samanborið við 16,8 milljarða króna halla í fyrra. Hagstæðari jöfnuður þáttatekna skýrist af vaxandi tekjum af beinum fjárfestingum erlendis umfram auknar vaxtagreiðslur af erlendum skuldum. Hrein rekstrarframlög til útlanda, sem að stærstum hluta eru framlög hins opinbera til alþjóðastofnana og þróunaraðstoðar, námu 1,1 milljarði króna og höfðu hækkað nokkuð frá fyrra ári.