Viðskiptahallinn nam 13 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi ársins, samkvæmt bráðabirgðauppgjöri Seðlabanka Íslands, samanborið við 2,7 milljarða á sama tíma í fyrra og jókst hann því um tæp 400% milli ára. Vöruviðskipti voru hagstæð um 0,3 milljarða króna, en 5 milljarða króna halli var á þjónustuviðskiptum við útlönd. Halli á þáttatekjum við útlönd var 8,1 milljarður króna á fyrsta ársfjórðungi 2004 samanborið við 6,1 milljarðs króna halla á sama tíma í fyrra.

Hreint fjárinnstreymi mældist 23,6 milljarðar króna á fyrsta fjórðungi ársins. Erlendrar lántökur nettó voru 83,2 milljarðar króna sem skýrist af skuldabréfaútgáfu í Evrópu en önnur erlend lán lækkuðu á sama tíma. Bein fjárfesting erlendra aðila á Íslandi var 6,4 milljarðar króna. Fjárútstreymi vegna erlendra verðbréfakaupa nam 24,8 milljörðum króna og 9,7 milljörðum króna vegna beinna fjárfestinga erlendis. Aðrar fjárfestingar voru 24,1 milljarður króna, einkum útlán bankanna til erlendra aðila sem hafa aukist mikið á síðustu árum og nema nú um 165 milljörðum króna. Gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands jókst um 7,5 milljarða króna á fyrsta fjórðungi ársins og nam hann 66,7 milljörðum króna í lok mars 2004.