Samkvæmt bráðabirgðatölum byggðum á innheimtu virðisaukaskatts frá Hagstofu Íslands var vöruskiptahallinn í maí 10,9 milljarðar króna sem er svipaður halli og í apríl en tæpum þremur milljörðum minna en á sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í Vefriti fjármálaráðuneytisins.

Vöruútflutningur var um 20,3 milljarða króna virði og batnar lítillega sem má að mestu rekja til að álútflutningur virðist aukast á ný eftir að hafa verið í minna lagi í apríl. Þó nær álútflutningur ekki sama flugi og í febrúar og mars.

Útflutningur nýrrar verksmiðju Alcoa á Reyðarfirði er hafinn og búist við að hann aukist hratt á árinu. Flutt var inn fyrir 31,2 milljarða króna, sem er aukning um tæpan milljarð frá síðasta mánuði. Bílainnflutningur jókst í maí ásamt eldsneytisinnflutningi en sá liður er mjög sveiflukenndur milli mánaða en einnig jókst matvælainnflutningur nokkuð.

Innflutningur á hrá- og rekstrarvörum minnkar á milli mánaða en það má rekja til minni innflutnings á hráefnum til álframleiðslu, en sá liður er einnig sveiflukenndur milli mánaða. Innflutningur á fjárfestingarvörum er svipaður og í apríl, það sama á við um varanlegar og hálf-varanlegar neysluvörur (skór, fatnaður ofl.). Hins vegar eykst innflutningur á óvaranlegum neysluvörum (lyf, tóbak t.d.) lítillega. Innflutningur á skipum og flugvélum var enginn í maí en þeir liðir hafa verið óáreiðanlegir síðustu mánuði sem hefur kallað á leiðréttingar nokkra mánuði aftur í tímann, einkum út af síðbúinni upplýsingagjöf frá fyrirtækjum segir í vefritinu.