Viðskiptahallinn minnkaði úr 15,5% af landsframleiðslu á öðrum ársfjórðungi í 9,5% á þeim þriðja, samkvæmt nýjum tölum frá Seðlabankanum. Í Hálffimm fréttum Kaupþings segir að minnkandi halla á viðskiptum við útlönd megi að miklu leyti rekja til viðsnúnings á jöfnuði þáttatekna, sem í lok fjórðungs hafi reynst vera jákvæður um 9 milljarða króna. Þáttatekjujöfnuður hefur ekki verið jákvæður frá því í lok árs 2002. Þjónustuhallinn minnkaði í fjórðungnum en vöruskiptahallinn jókst lítillega.

Stefnir í 12% viðskiptahalla í ár

Á fyrstu níu mánuðum ársins nam viðskiptahallinn 12% af landsframleiðslu, segir í Hálffimm fréttum. Þar segir einnig að vöruskiptahalli á fyrstu níu mánuðum ársins hafi minnkað úr 13% í fyrra í 8% í ár. Væntingar hafi verið um hraðari samdrátt hallans, en munurinn skýrist á töfum í álframleiðslu á Reyðarfirði. Greiningardeild Kaupþings telur að útflutningur muni aukast umtalsvert á næstu mánuðum þar sem álframleiðsla sé nú komin af stað fyrir austan og framleiðslan aukist hratt. Greiningardeildin hafði spáð því að viðskiptahallinn yrði 15% af landsframleiðslu í ár, en telur nú að hann verði um 12% og minnki enn frekar á næstu misserum.