Eðlilegt er að líta um öxl og leita skýringa á þeirri slæmu stöðu sem nú er uppi í efnahagslífinu. Hinsvegar er það svo að engar einfaldar eða einhlítar skýringar liggja fyrir.

Þetta kom fram í setningarræðu Erlends Hjaltasonar, formanns Viðskiptaráðs og forstjóra Exista á viðskiptaþingi sem nú stendur yfir.

Erlendur sagði að ýmsar skýringar hefðu verið nefndar, meðal annars hröð nútímavæðing fjármálamarkaðar hérlendis, ofgnótt lausafjár á alþjóðamörkuðum og umdeilt einkavæðingarferli bankanna.

„Einnig er ljóst að peningastefna Seðlabanka Íslands var bitlítil, hagstjórn stjórnvalda slök og eftirlitskerfið ekki nægilega burðugt til að bregðast við vexti og alþjóðavæðingu hagkerfisins,“ sagði Erlendur í ræðu sinni.

„Einnig er nauðsynlegt að viðurkenna að of oft voru áherslur og aðferðir í íslensku viðskiptalíf gagnrýni verðar. Þó ekki megi alhæfa um of, þá er ljóst að áhættusækni var of rík, gagnsæi hefði þurft að auka og frekar huga að góðum stjórnarháttum.“

Erlendur sagði að samvirkni þessara þátta og mikil ólga á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hefðu valdið  hruni íslensku bankanna og kreppu í íslensku efnahagslífi.

„Þrátt fyrir að ekki megi gera lítið úr veikleikum sem til staðar voru á Íslandi þá er ljóst að alþjóðahagkerfið hefur ekki staðið frammi fyrir umfangsmeiri vanda svo áratugum skiptir,“ sagði Erlendur og sagi að ábyrgð hérlendis mætti finna í ranni viðskiptalífs, stjórnmála, eftirlitsstofnana og víðar.

„Opinberum stofnunum og eftirlitsaðilum á að láta eftir að gera upp fortíðina, rannsaka möguleg lögbrot og sækja til saka þá sem til þess hafa unnið. Verkefnið blasir við, endurreisn hagkerfisins til framtíðar,“ sagði Erlendur.

„Með jákvætt hugarfar að leiðarljósi þarf að bera kennsl á hætturnar og finna skynsamlegar leiðir til endurreisnar. Erfið verkefni hafa hingað til ekki verið leyst með annarri nálgun.“