Sumir hafa viljað kenna alþjóðavæðingu og aukinni áherslu á markaðslausnir um núverandi vandamál í efnahagskerfi landsins.

Undir sama hatt hefur einstaklingsframtak og viðskiptafrelsi verið sett. Þó eðlilegt sé að leita svara við ástæðum núverandi ástands er ljóst að um afbökun á ofangreindum hugtökum er að ræða.

Þetta kom fram í setningarræðu Erlends Hjaltasonar, formanns Viðskiptaráðs og forstjóra Exista, á viðskiptaþingi sem nú stendur yfir.

Hann sagði nauðsynlegt að hafa í huga að einkaframtak og markaðsbúskapur sé ekki ávísun á tiltekna tegund samfélagsgerðar.

„Hugmyndafræðin gerir ekki ráð fyrir að hið opinbera hafi ekki hlutverk, líkt og iðulega er haldið fram, heldur að hinu opinbera sé ætlað að skapa einstaklingum og einkaaðilum þá umgjörð sem best nýtist hagkerfinu í heild,“ sagði Erlendur.

„Í því felst meðal annars að það er hlutverk hins opinbera að verja þegna fyrir skaðlegum áhrifum af starfsemi einkaaðila. Verði frelsi á kostnað annarra á það lítið skylt við hugmyndafræði viðskiptafrelsis eða markaðsbúskapar.“

Þá sagði Erlendur að afleiðingar hruns fjármálakerfisins sé skýrt dæmi um vandamál af þessum toga. Þar sem ríkið standi nú frammi fyrir skuldbindingum vegna starfsemi einkafyrirtækja hafi stjórnvöld greinilega sofið á verðinum.

„Rökin fyrir því að grunnforsendur markaðsbúskapar séu brostnar eru veik og geta reynst skaðleg fái þau víðtækan hljómgrunn,“ sagði Erlendur.

„Þó nú blási á móti er ekki vænlegt að snúa baki við þeim almennu viðhorfum sem hafa leitt til hagsældar vestrænna ríkja síðustu áratugi. Brýnt er að skoða afleiðingar af hinum valkostinum, sem felur í sér skerðingu á athafnafrelsi, aukinn ríkisbúskap, höft og stöðnun. Reynslan af þessum kosti er ekki góð og er vert að hafa það hugfast í þeirri ríkisvæðingu sem í stefnir.“