Hættur í kjölfar efnahagshremminga eru margvíslegar. Þar má helst nefna mögulegan flótta fólks og fjármagns úr landinu, stóraukin umsvif og afskipti hins opinbera, skerðingu á athafna- og viðskiptafrelsi og viðhorfsbreytingu í átt til tortryggni, framtaksleysis og einangrunar.

Þetta kom fram í setningarræðu Erlends Hjaltasonar, formanns Viðskiptaráðs og forstjóra Exista, á viðskiptaþingi sem nú stendur yfir.

Erlendur sagði að þrátt fyrir að niðursveifla hagkerfisins sé skammt á veg komin beri þegar á því að hugur Íslendinga leitar utan. Full ástæða sé til að spyrna af krafti við slíkri þróun enda gætu afleiðingarnar til lengri tíma orðið mjög neikvæðar fyrir þjóðarbúið.

„Þeir sem líklegastir eru til að flytja búferlum er ungt, vel menntað og vinnufært fólk sem Ísland má síst við að missa,“ sagði Erlendur.

Þá sagði Erlendur að almenn vantrú ríkti innanlands sem utan í garð stjórnvalda, stofnana og kjörinna fulltrúa.

„Meira fer fyrir umræðu um vandamál en um uppbyggilegar lausnir og er það sérlega áberandi í fjölmiðlum og í netheimi,“ sagði Erlendur.

„Þó svo viðhorf af þessu tagi séu að einhverju leiti skiljanleg, geta þau staðið framförum fyrir þrifum. Þau draga úr vilja góðs fólks til þátttöku í endurreisn, hvort heldur sem eru á opinberum vettvangi eða innan atvinnulífs. Þau koma í veg fyrir skilvirka ákvörðunartöku stofnana og ríkisfyrirtækja í tengslum við úrvinnslu á þeim bráðavanda sem nefndur var hér á undan. Og þau fæla frá atvinnurekstri þá sem hann hafa stundað og draga úr áhuga nýrra aðila til aðkomu að atvinnusköpun.“