Hrun fjármálakerfisins í október hefur orðið til þess að fyrirtæki og heimili hafa orðið fyrir búsifjum og ríkisstjórn fallið. Alþjóðlegar horfur eru einnig dökkar. Þjóðarsálin sem áður einkenndist af kjarki og bjartsýni einkennist nú um of af vonleysi og reiði.

Þetta kom fram í setningarræðu Erlends Hjaltasonar, formanns Viðskiptaráðs og forstjóra Exista, á viðskiptaþingi sem nú stendur yfir.

Erlendur sagði að ekki þyrfti að hafa mörg orð um mikilvægi skjótra aðgerða við slíku ófremdarástandi.

„Nú virðist hafa náðst ágæt sátt um að til skemmri tíma eigi stjórnvöld og atvinnulíf að einhenda sér í að lágmarka tjón vegna hrunsins,“ sagði Erlendur.

„Þetta þarf að gera með áherslu á að halda fyrirtækjum í rekstri og atvinnustigi eins háu og kostur er. Atvinnuleysi þarf að vinna gegn af öllu afli og best er að störf skapist vegna hagfellds rekstrarumhverfis fyrirtækja frekar en opinberrar íhlutunar.“

Þá ítrekaði Erlendur að til þess þyrfti að lækka vexti þegar í stað, afnema gjaldeyrishöft við fyrsta tækifæri, koma lagi á bankakerfi og fjármagnsmarkað og greiða af skilvirkni úr skuldavanda fyrirtækja og heimila.

„Hvað sem brýnum aðgerðum líður, er ákall um umfangsmeiri endurskoðun og breytingar til framtíðar greinilegt,“ sagði Erlendur.

„Þó svo slíkar breytingar krefjist samráðs og hafi lengri meðgöngutíma, eru þær ekki síður mikilvægar en bráðaaðgerðir.“