Vart er hægt að líta framhjá því að raunverulegir efnahagslegir kostir fylgja aðild að myntbandalagi Evrópu og Evrópusambandinu.

Þetta kom fram í setningarræðu Erlends Hjaltasonar, formanns Viðskiptaráðs og forstjóra Exista, á viðskiptaþingi sem nú stendur yfir.

Erlendur sagði að þeir kostir verði hinsvegar ekki skoðaðir til hlítar nema með aðildarumsókn. Því ætti þegar að skilgreina samningsmarkmið og ganga til viðræðna um aðild að ESB með heildarhagsmuni Íslands að leiðarljósi.

„Þar ber sérstaklega að huga að þeim málefnum sem lúta að nýtingu og stjórnun auðlinda,“ sagði Erlendur.

„Aðalatriðið er þó að þessi mál verði leidd til lykta á skýran hátt sem allra fyrst.“

Þá sagði hann að stjórnvalda bíði það erfiða verkefni að koma jafnvægi á fjármál hins opinbera á næstu árum.

Þar séu aðeins tvær leiðir færar, að auka skattheimtu og opinbera gjaldtöku eða skera niður útgjöld og hagræða.

„Aukin skattbyrði er lítt heppileg í núverandi árferði,“ sagði Erlendur.

„Fyrir því eru einkum tvær ástæður. Í fyrsta lagi eru byrðar nægar fyrir á fyrirtækjum og heimilum. Í öðru lagi leiðir aukin skattbyrði til minnkandi umsvifa og þrengri skattstofna. Sú leið að mæta fjárlagahalla með auknu aðhaldi í opinberum rekstri er mun vænlegri til árangurs, sérstaklega í ljósi þess svigrúms sem hlýtur að hafa skapast í miklum vexti útgjalda á undanförnum árum.“