Um 23,8 milljarða króna afgangur á viðskiptajöfnuði mældist á þriðja ársfjórðungi í ár samanborið við rúmlega 44 milljarða króna halla á öðrum ársfjórðungi. Afgangur af vöruskiptum við útlönd var 21,8 milljarðar króna og 35,3 milljarða króna afgangur var á þjónustuviðskiptum. Jöfnuður þáttatekna var hinsvegar neikvæður um 33,3 milljarða króna.

Seðlabankinn birti í dag bráðabirgðayfirlit um greiðslujöfnuð við útlönd á þriðja ársfjórðungi 2010 og um stöðu þjóðarbúsins í lok fjórðungsins.

Halli rakin til slitameðferða

„Halla á þáttatekjum á þriðja ársfjórðungi má eins og áður rekja til innlánsstofnana í slitameðferð. Reiknuð gjöld vegna þeirra námu 38,8 milljörðum króna og tekjur um 1 milljarði. Jöfnuður þáttatekna án áhrifa innlánsstofnana í slitameðferð var jákvæður um 4,5 milljarða króna og viðskiptajöfnuður jákvæður um 61,7 milljarða króna,“ segir í tilkynningu Seðlabankans.