Peter Mandelson, viðskiptakommissar Evrópusambandsins (ESB), segir þá verndarstefnu, sem forsetaframbjóðendur Demókrataflokksins hafa talað fyrir í kosningabaráttunni, vera ógn fyrir hina frjálslyndu skipan alþjóðaviðskipta í heiminum, sem hefði verið byggt upp allt frá endalokum síðari heimsstyrjaldar. Í sjónvarpsþættinum Hardtalk á breska ríkisútvarpinu (BBC) sagði Mandelson að það væri „óábyrgt að þykjast geta reist nýja tollamúra um hagkerfið þitt á 21. öldinni en samt sem áður viðhaldið jafn góðum lífsgæðum og störfum fyrir fólk. Það er tálsýn og þeir vita það“.

Mandelson neitaði að segja hvaða forsetaframbjóðendur hann hefði í huga, en ljóst þykir að hann hafi verið að vísa til Barack Obama og Hillary Clinton. Þau hafa bæði - sem öldungardeildarþingmenn - stutt frumvarp sem myndi heimila Bandaríkjunum að setja á innflutningstolla á kínverskar vörur til að bæta upp fyrir þann skaða sem þau segja að hljótist af lágu gengi kínverska gjaldmiðilsins. Slík aðgerð myndi nánast örugglega teljast vera brot á reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO).

Clinton hefur jafnframt kallað eftir því að Fríverslunarsamkomulag Norður-Ameríku (NAFA) verði endurskoðað, auk þess sem öllum nýjum fríverslunarsamningum verði slegið á frest þangað til búið sé að ráðast í gaumgæfilega skoðun á núverandi samningum. Mandelson bætti því við að honum þætti óábyrgt að telja fólki trú um að hægt væri að segja skilið við alþjóðaviðskipti í einhverju mæli, reist tollamúra um hagkerfið og síðan látið eins og það komi á óvart þegar önnur ríki bregðist við með því að gera slíkt hið sama. „Þetta skapar vítahring sem mun færa okkur marga áratugi aftur í tímann þegar kemur að vexti alþjóðaviðskipta“. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Mandelson gagnrýnir Clinton í fríverslunarmálum. Í desember á liðnu ári sagði hann að efasemdir forsetaframbjóðandans um Dohaviðræðurnar og tal um nauðsyn þess að vernda bandarísk fyrirtæki fyrir erlendri fjárfestingu væru dapurlegt tákn um tíðarandann.