Þungavigtarmenn í bresku viðskiptalífi hafa gagnrýnt Tony Blair, forsætisráðherra landsins, fyrir að hafa látið í ljós áhyggjur yfir fjárfestingaumhverfi Rússlands, jafnvel þótt að dæmi um séu um að stjórnvöld í Moskvu hafi söðlað undir sig eigur erlendra fyrirtækja í orkugeiranum.

Í aðdraganda leiðtogafundar átta helstu iðnríkja heims (G8) í Þýskalandi í síðustu viku lét Blair þau orð falla að hætta væri á því að erlendir fjárfestar litu framhjá Rússlandi ef stjórnvöld í Moskvu tileinkuðu sér ekki vestræn lýðræðisgildi. Ekki er að sjá af ummælum þeirra fulltrúa alþjóðlegra stórfyrirtækja sem sóttu viðskiptaráðstefnu sem var haldin í St. Pétursborg um helgina að þeir deili áhyggjum Blairs. Haft er eftir Hans Jörg Rudloff, stjórnarformanni Barclays Capital, í Financial Times að breska ríkisstjórnin hefði rangt fyrir sér með því að lýsa opinberlega áhyggjum yfir stöðu mála í Rússlandi. Umbreyting Rússlands yfir í markaðshagkerfi hafi tekist og af þeirri braut verður ekki snúið.
Peter Hambro, framkvæmdastjóri Peter Hambro Mining sem hefur mikil umsvif í Rússlandi, tekur í sama streng og segir ummæli Blairs hugsanlega skaðleg fyrir breska viðskiptahagsmuni í landinu. Hann segir að breska utanríkisþjónustan hafi skapað athafnamönnum vandræði undanfarnar vikur og bætir við að afstaða viðskiptalífsins til Rússlands sé allt önnur en Blairs. Eitthvað virðist vera til í því þar sem að fram kom í máli Vladímír Pútíns, forseta Rússlands, á viðskiptaþinginu að erlend fjárfesting hafi verið tæplega þrefalt meiri á fyrsta ársfjórðungi þessa árs en á sama tíma og í fyrra.

Auk ummæla Blair hefur verið spenna á milli breskra og rússneskra stjórnvalda vegna rannsóknarinnar á dauða Alexander Lítvínenkó - en stjórnvöld í London vilja að Rússinn Andrei Lúgóvoj verði framseldur til Bretlands þar sem að þau segjast hafa næg sönnunargögn til þess að ákæra hann fyrir morð á fyrrum leyniþjónustumanninum.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.