Viðskiptanefnd Alþingis mun á mánudaginn funda með forsvarsmönnum lífeyrissjóðanna, Íbúðalánasjóðs og Byrs um afskriftaleiðir vegna skulda heimilanna og þá sérstaklega hvernig hægt að sé að auka jafnræði við meðferð skuldara. Ljóst er að sumir eru á fá afskrifaðar tugi milljóna, meðan aðrir fá litla sem enga afskrift þrátt fyrir þunga greiðslubyrði.

Eins og greint var frá í Viðskiptablaðinu, sem kom út í gær, óskaði Lilja Mósesdóttir, formaður Viðskiptanefndar, eftir því að fá skýringar á því hvers vegna bankarnir þrír, Arion banki, Landsbankinn og Íslandsbanki, bjóða ekki allir upp á sömu leiðir við afskriftir skulda. Allir bankarnir bjóða upp á lækkun höfuðstóls gengisbundinna lána um 25 - 30 prósent, gegn því að láninu verði umbreytt í óverðtryggt lán. Arion banki býður bestu vaxtakjörin við þá umbreytingu en Íslandsbanki og Landsbankinn nokkru lakari vexti. Auk þessara leið bjóða bankarnir greiðslujöfnunarleiðina sem Alþingi samþykkti í október í fyrra. Hún hefur þó verið gagnrýnd nokkuð, þar sem hún eykur skuldir til horft til lengri tíma.

Arion banki og Landsbankinn bjóða báðir hina svokölluðu 110% leið, þar sem skuldir eru lækkaðar niður í 110% af fasteignamati íbúðar. Í tilfelli Landsbankans er fremur horft til markaðsvirðis, en löggiltur fasteignasali þarf að meta virði fasteignarinnar áður skuldin er lækkuð. Virði fasteignarinnar má þó aldrei fara niður fyrir fasteignamat. Eins og greint er frá í Viðskiptablaðinu hefur Íslandsbanki ekki viljað bjóða upp á þessa leið þar sem hún nýtist öðru fremur þeim sem eru með mjög mikla skuldsetningu umfram virði eignar en hafa samt sem áður tök á því að standa undir láninu, að mati forsvarsmanna bankans. Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, hefur, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, komið þessum skýringum beint til Lilju.

Eins og sést á dæminu hér að neðan getur 110% leiðin, sem Arion banki og Landsbankinn bjóða, komið sér vel fyrir þá sem eru með miklar skuldir umfram virði eignir.

Dæmi:

Tökum dæmi af 40 milljóna króna láni í evrum, jenum og frönkum, sem tekið var um mitt ár 2007. Eftir gengisfallið stendur það í 85 milljónum. Markaðsvirði húsnæðisins, sem lánið var notað til þess að kaupa, er 50 milljónir í dag en fasteignamatið sem Arion banki miðar við þegar skuldirnar eru lækkaðar er 35 milljónir.  Eftir að hafa fengið lækkun skulda niður í 110% af fasteignamati stendur eftir um 38,5 milljónir. Heildarafskrift höfuðstólsins er því 46,5 milljónir. Þetta þýðir afskrift upp á 55% af skuldinni. Sé miðað við áætlað markaðsvirði, eins og Landsbankinn gerir, er heildarafskrift lánsins nokkru minni, eða 30 milljónir króna. Af láni sem nú stendur í 30 milljónum, markaðsvirði eignar er 20 milljónir og fasteignamatið 18 milljónir, afskrifast 10,2 milljónir sé miðað við fasteignamatið en 8 milljónir sé miðað við markaðsvirði. Það gerir lækkun höfuðstóls upp á 27% miðað við markaðsvirði en 34% sé miðað við fasteignamat. Því meiri sem skuldin er umfram virði eignar, því meiri verður afskriftin, bæði hlutfallslega og í föstum tölum.

Sjá nánari umfjöllun í Viðskiptablaðinu.