Skattahækkanir og aukin opinber gjaldheimta eru lítt heppilegar aðgerðir í núverandi árferði. Til að auka skatttekjur þarf annað hvort að auka hlutfallslega skattheimtu eða breikka þá skattstofna sem mynda tekjurnar.

Þetta kemur fram á vef Viðskiptaráðs þar sem fjallað um umræðu um skattahækkanir.

„Ljóst er að verulega mun sverfa að í fjármálum hins opinbera á næstu misserum í kjölfar hruns íslenska fjármálakerfisins. Efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er til vitnis um það, en þar er gert ráð fyrir umtalsverðum halla á rekstri hins opinbera á í ár og á því næsta,“ segir á vef Viðskiptaráðs.

Við stjórnvöldum blasi því það vandasama verkefni að brúa þann fjárlagahalla sem þjóðin standi frammi fyrir.

Viðskiptaráð segir í þessari viðleitni einkum tvær leiðir færar: hækka skatta og opinbera gjaldheimtu eða skera niður útgjöld og hagræða í opinberum rekstri.

„Því miður virðist fyrri leiðin hljóta aukinn hljómgrunn,“ segir á vef Viðskiptaráðs og vitnað er í fund , Samfylkingarinnar á Hótel Borg í víkunni, en þar voru þau orð látin falla að skattahækkanir væru óhjákvæmilegar og að einhver hluti þeirra yrði varanlegur.

„Í þessu sambandi má ekki gleyma að þessi tvær þættir vinna gegn hvor öðrum. Aukin skattbyrði leiðir í flestum tilfellum til minnkandi umsvifa og þar af leiðandi þrengri skattstofna. Það er því ekki öruggt að skattahækkanir skili ríkinu auknum tekjum, sér í lagi við núverandi aðstæður,“ segir á vef Viðskiptaráðs.

„Eins og staðan er í efnahagsmálum þjóðarinnar gæti beinlínis reynst skaðlegt að hækka skatta. Atvinnulífið og heimilin í landinu berjast þegar í bökkum og er ekki á það bætandi með skattahækkunum. Þá er aukin opinber gjaldheimta líkleg til að bitna harkalega á heimilunum í formi verðbólgu, líkt og gerðist með hækkun opinberrar álagningar skömmu fyrir áramót, en hún rataði beint inn í vísitölu neysluverðs og hækkaði því verðtryggðar skuldir.“

Sjá nánar á vef Viðskiptaráðs.