Viðskiptaráð Íslands greiddi Frederic Mishkin, sem ákveðið hefur að víkja úr bankastjórn Seðlabanka Bandaríkjanna , tæpar tíu milljónir króna árið 2006 miðað við núgengi dollara, samkvæmt frétt Wall Street Journal frá því í dag. Færði hann greiðsluna sem ráðgjafaþóknun í bókhaldi sínu.

Mishkin kom hingað til lands til fyrirlestrahalds haustið 2006 ásamt því að hann vann skýrslu um fjármálastöðugleika á Íslandi ásamt þáverandi forstöðumanni Hagfræðistofnunar, Tryggva Þór Herbertssyni.

Ríflega helmingur ráðgjafagreiðsla frá Íslandi

WSJ segir frá þessu í tengslum við umfjöllun um Mishkin og tekjur hans sem fræðimanns, sem blaðið segir hafa verið með ágætum samkvæmt yfirliti yfir fjármál hans sem birt voru á seinasta ári.

Á árinu 2006, áður en hann settist í stjórn bandaríska Seðlabankans, hafi hann auk milljónanna tíu (um 135 þús. dollara) frá Viðskiptaráði, fékk hann rúma 63 þúsund dollara frá sænska þinginu, Riksdagen, sem réði hann til að skrifa skýrslu um sænska Seðlabankann.

Þá greiddi Seðlabankinn í Chile honum tæplega 15,600 dollara og það sama gerði Kóreubanki, Seðlabankinn á Spáni greiddi honum rúmlega 9 þúsund dollara og Seðlabanki Kanada rúma 4 þúsund dollara.

Fyrir utan laun sín sem prófessors við Kólumbíuháskóla fékk hann því samtals um 18 milljónir króna á árinu 2006 í ráðgjafagreiðslur.

„Herra Mischkin er kannski að afsala sér stöðu sem felur í sér að geta haft áhrif á peningastefnuna, en hann mun örugglega hagnast meira á því að snúa aftur til fræðistarfa,” segir í frétt WSJ.