Þrátt fyrir að erlendir aðilar telji þjóðina ramba á barmi gjaldþrots er ekki óhugsandi að Íslendingar gætu staðgreitt útistandandi skuldir vegna Icesave.

Sú fjárhæð sem nýtt væri til greiðslu kæmi frá lífeyrissjóðum landsins sem myndu veita ríkissjóði Íslands erlent lán. Lánið væri fjármagnað með sölu á erlendum eignum sjóðanna, en þær námu um 2,9 milljörðum evra í lok júlí 2009.

Þetta kemur fram í nýrri skoðun Viðskiptaráðs um þátttöku lífeyrissjóða í endurreisnarstarfi hér á landi en Viðskiptaráð segir eitt stærsta einstaka viðfangsefni stjórnvalda síðustu mánuðina vera úrlausn á skuldbindingum Tryggingasjóðs innlánaeigenda gagnvart breskum og hollenskum stjórnvöldum, Icesave-málið svokallaða.

„Það er ljóst að um gjörbreytta nálgun á málið væri að ræða, en þrátt fyrir það eru margir kostir fólgnir í þessari leið,“ segir í skoðun Viðskiptaráðs.

„Ekki hefur enn tekist að leiða málið til lykta enda um mjög pólitískt og erfitt mál að ræða. Það er þó ljóst að vilji stendur til að leysa málið, að því gefnu að um sanngjarna niðurstöðu gagnvart öllum aðilum sé að ræða.“

Viðskiptaráð segir eitt af því sem helst hefur verið rætt sé sú spurning hvort Íslendingar standi raunverulega undir þeim skuldbindingum sem fyrirliggjandi samningi fylgir. Samkvæmt honum fá Íslendingar 7 ára frest fram að fyrstu afborgun, en sá tími er ætlaður til að hámarka endurheimtur af lánasafni Landsbankans. Bretar og Hollendingar hafa þegar greitt út lágmarkstryggingar til innstæðueigenda og líta því svo á að umrædd upphæð sé skuld íslenska ríkisins gagnvart þeim.

„Það lán sem nú stendur til boða ber 5,55% fasta vexti sem hljóta að teljast nokkuð góð kjör að því gefnu að krafan sé réttmæt,“ segir í skoðun Viðskiptaráðs.

Viðskiptaráð segir heildareignir sjóðanna þó ekki duga fyrir samtölu Icesave-skuldbindinganna. Lánin sem bresk og hollensk stjórnvöld veita séu aftur á móti á mun hagstæðari kjörum en ríkissjóði myndi bjóðast á markaði.

„Með þessu er átt við að vaxtaálag lánanna er talsvert lægra en metið er eðlilegt gagnvart skuldbindingum íslenska ríkisins í erlendri mynt,“ segir í skoðun Viðskiptaráðs.

„Skuldatryggingaálag ríkissjóðs stendur t.a.m. nálægt 400 punktum um þessar mundir, sem er um 270 punktum hærra en álagið á lánum Breta og Hollendinga. Ef gert er ráð fyrir að eðlileg kjör á slíku láni til ríkissjóðs væru 200 punktum hærri þá er ljóst að forsendur fyrir verulegum staðgreiðsluafslætti eru til staðar.“

Þá segir jafnframt:

„Að því gefnu að losa mætti erlendar eignir sjóðanna með tiltölulega litlum afföllum má því ætla að erlendar eignir þeirra færu langt upp í heildarskuldbindingarnar. Væri þessi leið farin myndi íslenska ríkið skulda innlendum lífeyrissjóðum í stað breska og hollenska ríkissjóðnum. Þannig væri búið að leysa Icesave-vandann gagnvart erlendum aðilum og hægt væri að einbeita sér að öðrum uppbyggingarverkefnum.“

Viðskiptaráð segir þrjár meginástæður fyrir því að skoða ætti þessa leið. Í fyrsta lagi væri gríðarlegur ímyndarlegur ávinningur fólginn í því að greiða upp skuldbindingar Íslendinga vegna Icesave með þessum hætti. Í öðru lagi væri um ágætis fjárfestingu fyrir lífeyrissjóðina að ræða. Í þriðja lagi sé eðlilegt að núverandi kynslóðir beri megnið af áhættunni fremur en komandi kynslóðir.

„Með því að ríkið taki á sig gríðarlegar erlendar skuldbindingar er búið að taka lán fyrir hönd Íslendinga framtíðarinnar. Ef mótaðili lánsins væri lífeyrissjóðirnir í stað Breta og Hollendinga myndu sjóðsfélagar bera hluta af þeirri vanskilaáhættu sem er fólgin í slíku láni,“ segir í skoðun Viðskiptaráðs.

Sjá nánar skoðun Viðskiptaráðs (pdf skjal)