Til að Ísland geti endurheimt stöðu sína sem öflugur þátttakandi í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi er nauðsynlegt að stjórnvöld leggi ríka áherslu á farsælt samstarf við erlenda aðila, fyrst og fremst með milligöngu og aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS).

Þetta kemur fram í nýrri skoðun Viðskiptaráðs sem birt er í dag.

Þar segir að sá vandi sem hefur myndast í efnahagsmálum þjóðarinnar verði aðeins leystur í samstarfi við alþjóðasamfélagið „enda ljóst að aðrir kostir myndu leiða til efnahagslegrar einangrunar með tilheyrandi stöðnun og velferðartapi.“

„Það var farsælt samstarf við alþjóðasamfélagið sem losaði íslensku þjóðina úr fjötrum fátæktar á sínum tíma og þetta sama samstarf mun koma þjóðinni á braut varanlegrar endurreisnar,“ segir í skoðun Viðskiptaráðs.

Þá segir Viðskiptaráð að sagan sýni að samningar við alþjóðasamfélagið séu forsenda farsællar endurreisnar þjóða sem lent hafa í alvarlegum efnahagsáföllum.

„Í tilviki Íslands kallar þetta á að gengið verði endanlega frá samningum um innstæðutryggingar og samningum um greiðslur úr þrotabúum gömlu bankanna eftir því sem eignir duga til,“ segir í skoðun Viðskiptaráðs.

„Hér þarf að hafa sanngirni og samstarfsvilja að leiðarljósi til að tryggja sem víðtækasta sátt um niðurstöðu þessara mála. Aðeins þannig mun alþjóðasamfélagið viðurkenna Ísland sem trúverðugt og áreiðanlegt afl á vettvangi alþjóðlegra viðskipta í framtíðinni.“

Sjá skoðunina í heild sinni. (pdf skjal)