Um leið og Viðskiptaráð fagnar því að áætlun í ríkisfjármálum skuli nú loksins hafa litið dagsins ljós eru það engu að síður mikil vonbrigði hversu einhliða aðgerðirnar eru.

Þetta kemur fram vikulegu fréttabréfi Viðskiptaráðs en sem kunnugt er hefur fjármálaráðherra lagt fram frumvarp á Alþingi um ráðstafanir í fjármálum hins opinbera.

„Áherslan sýnist fyrst og fremst á aukna tekjuöflun með skattahækkunum og annarri opinberri gjaldheimtu í stað niðurskurðar og hagræðingar í ríkisrekstrinum. Áætlanir ríkisstjórnarinnar bera ekki með sér einlægan vilja til að fara „blandaða leið“, eins og svo gjarnan var talað um,“ segir í fréttabréfi Viðskiptaráðs en Viðskiptaráð hyggst skila inn umsögn um þetta frumvarp líkt og mörg önnur.

„Viðskiptaráð Íslands hefur ítrekað fjallað um ríkisfjármálin og þá stefnu sem æskilegt er að hafa að leiðarljósi á þeim vettvangi. Hefur ráðið talað gegn því að farin verði leið skattahækkana og opinberrar gjaldheimtu enda er fjárhagsstaða heimila og fyrirtækja þegar í molum og ekki á bætandi með auknum álögum,“ segir í fréttabréfinu.

Þá segir Viðskiptaráð að ekki sé víst að skattahækkanirnar skili ríkissjóði þeim tekjum sem ríkisstjórnin hefur áætlað við þær viðkvæmu aðstæður sem nú ríkja í efnahagslífinu.

„Alþjóðlegar hagrannsóknir benda til þess að miklar skattahækkanir í efnahagskreppum leiði gjarnan til tekjusamdráttar fyrir hið opinbera og því gætu áhrif skattahækkana nú orðið þveröfug við það sem lagt er upp með,“ segir í fréttabréfinu.