Þó svo að sjónarmið um opinber afskipti njóti aukins stuðnings við efnahagsaðstæður sem þessar standa veigamikil rök gegn slíkum afskiptum. Gildir þar einu hvort um sé að ræða bein opinber fjárframlög eða að hið opinbera og fyrirtæki í eigu þess hagi rekstri sínum á skjön við samkeppnissjónarmið og jafnvel löggjöf.

Þetta segir í dag á vef Viðskiptaráðs í dag en þar er fjallað um málefni Sementsverksmiðjunnar á Akreanesi og sementsinnflytjandans Aalborg Portland.

„Óhagkvæm nýting framleiðsluþátta, sem af slíkum samkeppnisröskunum leiðir, getur framlengt og aukið á yfirstandandi efnahagsörðugleika sem vart er á bætandi um þessar mundir,“ segir á vef Viðskiptaráðs.

Viðskiptaráð segir að opinber umræða um málefni Sementsverksmiðjunnar á Akranesi og Aalborg Portland beri þess glöggt merki hversu bágborin staða íslensks atvinnulífs er. Eftirspurn á flestum mörkuðum hafi hrunið og er víðtæk endurskipulagning á rekstri fjölda fyrirtækja því óumflýjanleg.

„Ein afleiðing slíkrar vinnu er því miður oft og tíðum að eljusamir einstaklingar missa viðurværi sitt og við því verður að bregðast. Áhrifaríkasta leiðin til þess felst í samstilltu átaki um lágmörkun þjóðhagslegs skaða og skjót viðbrögð til endurreisnar,“ segir á vef Viðskiptaráðs.

Sjá nánar á vef Viðskiptaráðs.