Líta ætti í auknum mæli til þess að fjárfesta í Írak, segir Carlos Gutierrez, viðskiptaráðherra Bandaríkjanna. Gutierrez sagði í samtali við Dow Jones að ástandið væri í dag mun tryggara en áður: „Fyrirtæki ættu líta til viðskiptatækifæra sem felast þar."

„Við aukið öryggi færa fyrirtæki sig upp á skaftið og störf verða til. Vonir vakna hjá fólki og það lítur bjartari augum til framtíðar. Tryggara ástand laðar að sér fjárfestingu."

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sagði í síðasta mánuði að íraska hagkerfið myndi leita jafnvægis á þessu og næsta ári, þrátt fyrir nokkra stjórnmálalega óvissu. Væntur hagvöxtur á þessu ári er 7%, og ívið meiri á næsta ári. Olíuframleiðsla nemur 70% af landsframleiðslu í Írak, og búist er við að framleiðsla verði aukin enn frekar á þessu ári í 200.000 tunnur á dag.

Gutierrez sagði í gær að olíuútflutningur Íraks hefði aukist stórlega síðan 2003 - úr 8 milljörðum dollara í 28 milljarða í dag. „Olíuútflutningur Íraka hefur gengið vel, en olíuverð er auðvitað einn lykilþátta í þeirri velgengi. Írak hefur gott tækifæri til þess að fjölga atvinnuvegum."