Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra sagði í samtali við Bloomberg fréttastofuna að vegna þess að íslenska ríkið var ekki fært um að bjarga bankakerfinu þá sé Ísland betur statt en mörg ríki sem enn eru að reyna að bjarga bankakerfi sínu.

Fyrirspyrjandi spurði út í það hvernig íslensku bönkunum gengi að losna við "eitraðar" eignir. Gylfi sagði að þær hefðu flestar verið skyldar eftir í gömlu bönkunum og myndu að lokum verða seldar. Hann sagði að það myndi ganga hægt fyrir sig þar sem ekki væri ætlunin að selja eignir á brunaútsölu. Um leið sagði hann nýju bankarnir myndu ekki verða í neinum vandræðum með þessar eignir og muni því byrja með hreint borð.

Gylfi var spurður að því hvort hann væri enn þeirrar skoðunar að Ísland myndi ekki þurfa á öllu láninu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að halda. Hann sagði svo vera enda láninu fyrst og fremst ætlað að sannfæra umheiminn um að íslensk stjórnvöld hefðu þau úrræði sem þyrfti að grípa til.

Viðskiptaráðherra fór í nokkur viðtöl í Washington og New York 6. og 7. apríl á meðan á veru hans í Bandaríkjunum stóð. Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins voru viðtölin mikilvægur liður í því að endurvekja trúverðugleika og tiltrú umheimsins á Íslandi.