Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra sagði á Alþingi í dag að ríkisstjórnin myndi vinna að fullu að því að koma í veg fyrir verðlagshækkanir. Í því skyni hefði hann boðað til sín í fyrramálið fulltrúa Alþýðusambandsins, Neytendasamtakanna og Neytendastofu.

Tilgangur fundarins væri að hefja öflugt og samstillt verðlagseftirlit. Þannig mætti koma í veg fyrir það, með öllum tiltækum ráðum, að alda verðhækkana brotnaði á almenningi.

"Við erum að skoða allar færar leiðir til að koma í veg fyrir það. Meðal annars með lækkun á tollum og vörugjöldum," sagði viðskiptaráðherra meðal annars á Alþingi í dag.