Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra kveðst vona að það muni ekki dragast mikið lengur en mánuð til viðbótar að ganga frá efnahagsreikningi ríkisbankanna. Vonir hans standa til að hægt verði að ljúka því máli í byrjun júní. Því sé þó ekki hægt að lofa.

Gylfi segir í samtali við Viðskiptablaðið að mörg máli verði þá leyst í einu. Til dæmis þurfi að ganga frá mati á eignum og skuldum sem fara í nýju bankana og hvernig greitt verði fyrir eignir umfram skuldir. „Síðan þarf að ganga frá hvernig eigendahliðin lítur út, þ.e.a.s. hvort bankarnir verði í eigu ríkisins eða í eigu kröfuhafa. Þetta hangir allt mjög  náið saman," segir hann.

„Þetta er mjög mikið verkefni og vonir standa til að það takist að vinna þetta í maí og að það dragist ekki langt fram í júní að ganga frá því."

Unnið er að þessum málum á mörgum vígstöðvum svo sem hjá Fjármálaeftirlitinu, skilanefndum bankanna, Deloitte, Oliver Wyman og í samræmingarnefnd sem Mats Josefson stýrir.