Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra lagði fram minnisblað á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun. Þar er farið yfir breytingar á lögum um bankaleynd en ráðuneytið hefur unnið að undirbúningi þess frá því síðla vetrar og verður afrakstur þeirrar vinnu lagður fyrir þingið í haust að sögn ráðherra. Að sögn Gylfa var þetta bara til kynningar og umræðu í ríkisstjórninni í morgun og engin ákvörðun tekin.

Um leið var kynntur skilningur ráðuneytisins og þeirra lögmanna sem hafa unnið fyrir það að það sé ótvíræður réttur fjölmiðlamanna að fjalla um almannahagsmuni. Undir það falla lánveitingar sem komu bönkunum á kné, sagði viðskiptaráðherra.

,,Ég er hins vegar ekki viss um að það sé brýn nauðsyn til þess að breyta því sem snýr að rétti fjölmiðla til þess að upplýsa almenning um almannahagsmuni. Það verður örugglega tekið til skoðunar, en mitt mat er – og þeir lögfræðingar sem hafa unnið fyrir ráðuneytið eru sama sinnis – er að réttur fjölmiðlamanna til að upplýsa um almannahagsmuni og gegna sínu hlutverki sé alveg ótvíræður og bankaleynd víki að einhverju marki. Allavega sé ekki réttlætanlegt að draga blaðamenn til ábyrgðar þegar þeir miðla efni sem einhver annar hefur rofið bankaleynd á. Það er ótvírætt minn skilningur og ég held að það eigi við í þessu máli varðandi lánabók Kaupþings eins og fyrri málum sem komu upp síðla vetrar,“ sagði viðskiptaráðherra.

- Þó þeir taki sig til og birti þetta? ,,Það þarf aðeins að flokka þetta niður. Að mínu mati liggur engin vafi á því að fjölmiðlamenn mega fjalla um hvað varð Kaupþingi að falli og þar á meðal óhófleg lán til tengdra aðila og sérstaklega þeirra sem áttu bankann. Þar má nefna lán með veði í hlutabréfum bankans. Það er enginn vafi í mínum huga að bankaleynd á ekki að koma í veg fyrir að menn geti fjallað um þetta. Hins vegar fjallaði þetta skjal sem sett var á netið um miklu fleira og meðal annars lánveitingar og fjármál aðila sem tengdust íslenska bankahruninu ekkert,“ sagði Gylfi. Hann nefndi þar ýmis dönsk fyrirtæki sem voru í lánaviðskiptum við FIH og íslensk fyrirtæki sem voru ekki í neinum sérstökum tengslum við bankana og ekkert athugavert við þeirar lánveitingar. ,,Ég tel að það hafi ekki verið réttlætanlegt að birta það. Menn verða að draga einhverja línu, sumt er réttlætanlegt að birta vegna almannahagsmuna en það er ekki hægt að draga línuna þannig að það er hægt að birta allt innan úr bönkunum. Einhvers staðar verður að draga mörkin og þau eru þarna einhvers staðar á milli. Ef þessi mál kæmu til kasta dómstóla myndu þeir draga línuna, hvað má og hvað má ekki og leggja mat á almannahagsmuni á móti hagsmunum viðskiptavina bankans með að geta haldið trúnaði um sín fjármál.“

- Þú gerir greinarmun á lánum til tengdra aðila – nú er bankinn fallinn – að í ljósi aðstæðna sé réttlætanlegt að fjalla um slíka þætti?

,,Ég held að um þetta hefði verið upplýst von bráðar því þetta er eitt af því sem að verður tekið fyrir í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis og reyndar hefði væntanlega verið upplýst líka um þetta vegna rannsóknar Fjármálaeftirlitsins og embættis sérstaks saksóknara sem er að fara yfir mál er tengjast hruni bankanna. Ég held að þetta hefði hvort sem er allt komið upp á yfirborðið seinna ef þessu hefði ekki verið lekið. En það varðar ekki almannahagsmuni að upplýsa um fjármál smárra einstaklinga sem tengdust bankahruninu ekki neitt.