Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, mun halda til Kína í opinbera heimsókn í dag. Heimsóknin mun standa fram til 18. apríl. Í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu segir að langur aðdragandi hafi verið að ferðinni og hún sé farin til að endurgjalda heimsókn starfsbróður viðskiptaráðherra í júní á síðasta ári.

„Í ljósi ástands mannréttindamála í Kína, og ekki síst ástandsins í Tíbet, mun viðskiptaráðherra taka þau mál upp í viðræðum sínum við kínverska ráðamenn. Íslensk stjórnvöld hafa áður tjáð Kínverjum þá afstöðu sína að það sé þjóðréttarleg skylda Kínverja að virða mannréttindi í Tíbet. Þessi afstaða verður frekar áréttuð í ferðinni og áhersla lögð á hve órjúfanlegum böndum viðskiptafrelsi, upplýsingafrelsi og mannréttindi eru tengd. Af því tilefni hefur verið óskað eftir sérstökum fundi um mannréttindamál með aðstoðarutanríkisráðherra Kína," segir í fréttatilkynningu ráðuneytisins