Viðskiptaráðherra ítrekar að ríkisstjórnin standi við samninga um innstæður í Bretlandi, Hollandi og í Þýskalandi. Þetta kemur fram í yfirlýsingu á vef ráðuneytisins.

Yfirlýsingin er sett fram vegna ummæla forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, í þýskum fjölmiðlum í dag. Þar var haft eftir forsetanum að þýskum sparifjáreigendum yrði ekki bætt það tap sem þeir hefðu orðið fyrir vegna innlagna á Kaupþing Edge í Þýskalandi

Yfirýsingin frá ráðherra er svohljóðandi:

Afstaða ríkisstjórnarinnar varðandi innstæður útibúa íslenskra banka á Evrópska efnahagssvæðinu hefur ekki breyst síðan í nóvember 2008 þegar Ísland og Evrópusambandið og nokkur aðildarríki þess komust að sameiginlegum viðmiðum um lausn á málefnum innstæðueigenda útibúa Landsbankans í Bretlandi og Hollandi (Icesave) og Kaupþings í Þýskalandi (Edge). Á grundvelli þessa samþykkti Alþingi þingsályktun um að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld vegna þessa máls. Samningaviðræður standa yfir og mun þeim vonandi ljúka fljótlega