Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, segir að þeir þingmenn sem segi á opinberum vettvangi að Íslendingar eigi ekki að greiða skuldbindingar sínar erlendis, séu kerfisbundið að grafa undan lánstrausti Íslands.

Þetta sagði Gylfi í umræðum um á Alþingi fyrir skömmu en þar fer nú fram umræða um frumvarp fjármálaráðherra um ríkisábyrgð á lántöku Tryggingasjóðs innistæðueigenda.

Það tókust þeir á Gylfi, og Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Guðlaugur Þór sagði að viðskiptaráðherra hefði í ummælum sínum um málið tekið undir málflutning samningsaðila Ísland í Icesave málinu svokallaða, þ.e. málflutning Breta og Hollendinga.

Gylfi sakaði þá Guðlaug Þór um ómálefnalegar árásir á þá aðila sem hefðu staðið í ströngu fyrir Íslands hönd. Hann sagði málflutning Guðlaugs Þórs ekki merkilegan og Guðlaugur Þór hefði gefið í skyn að samningamenn ríkisins hafðu ekki borið hagsmuni Íslands fyrir brjósti.

Guðlaugur Þór svaraði því til að hann hefði ekki verið að beina orðum sínum að samningamönnum heldur að viðskiptaráðherra einum. Hann sagði að viðskiptaráðherra hefði viðurkennt að fjármálaumhverfi Evrópu væri meingallað en svo virtist sem viðskiptaráðherra liti svo á að reglugerð um innistæðueigendur væri í lagi og henni bæri að fylgja.

Gylfi svaraði því þá til að þeir sem lýstu því yfir að Íslendingar ættu ekki að standa við skuldbindingar sínar erlendis væru kerfisbundið að grafa undan lánshæfismati Íslands. Hann sagði að lánshæfismat byggðist ekki eingöngu á því hvort ríki hefðu getu til að greiða skuldir sínar heldur væri það, þ.e. lánshæfismatið, einnig byggt á vilja þjóða til að greiða skuldir sínar.

Gylfi sagði að Landsbankinn hefði vorið 2008 „siglt til Hollands“ og opnað þar reikninga þrátt fyrir að vera illa staddur. Þannig hefði Landsbankinn verið með „handónýtt eignasafn“ auk þess að vera í lausafjár- og endurfjármögnunarvandræðum. Þar væri augljóst að galli væri á regluverki ESB um fjármálafyrirtæki en það breytti þó ekki þeirri staðreynd að Íslendingar væru ábyrgir fyrir innistæðunum.