Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra sagði í viðtali við fréttir Ríkisútvarpsins í kvöld að nú væri lag til að stíga fyrsta skrefið í niðurfellingu stimpilgjalda og vonandi næsta skref á eftir fljótlega, en bíða yrði og sjá hvað fjármálaráðherra segði um það.

Ekki hafi verið tímasettar aðrar niðurfellingar á stimpilgjöldum en í sumar, en í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir niðurfellingu allra stimpilgjalda.

Á Íslandi eru nú um 127 þúsund íbúðir en 4 þúsund til viðbótar eru í byggingu. 314 íbúðir skiptu um eigendur í apríl en 1096 að meðaltali á mánuði í fyrra. Til stendur að fella niður stimpilgjöld við kaupa á fyrstu íbúð við þarnæstu mánaðarmót.

Fasteignamarkaðurinn hefur verið nokkuð í umræðunni að undanförnu, en Arnór Sighvatsson, aðalhagfræðingur Seðlabankans segir samkvæmt frétt RÚV ýmislegt benda til þess að fasteignaverð lækki hraðar hér á landi en annars staðar.

Hann segir húsnæðisverð hafa hækkað hér á landi um 125% umfram almennt verðlag. Sé notuð vísitala neysluverðs án húsnæðis við útreikningana hefur raunverð fasteigna hækkað um 160%.

Þessi hækkun muni ekki ganga til baka nema að hluta. Arnór segir að Íslendingar hafi farið hratt úr ástandi þar sem gríðarlega mikið framboð var af lánum á lægri vöxtum en áður hafði þekkst yfir í lánstregðu. Þetta muni leiða til lækkunar fasteignaverðs.