Viðskiptaráðherra, Gylfi Magnússon, segist ekki hafa áhyggjur af því að ríkið hafi skapað sér skaðabótaábyrgð vegna Straums. Þá segir hann að ekki hefði verið hægt að bjarga Spron og Sparisjóðabankanum með sama hætti Saga Capital og VBS Banka.

Þetta kom fram í máli ráðherra á opnum fundi með viðskiptanefnd Alþingis sem nú stendur yfir.

Viðskiptaráðherra sagði um Straum að legið hefði fyrir, að þegar félagið færi í þrot yrðu innstæður forgangskröfur og að þær yrðu greiddar út sem slíkar. Að öðru leyti yrði farið með búið eins og önnur bú. Kröfuhafar væru ekki hlunnfarnir á neinn hátt. „Þar með get ég ekki séð hvernig ríkið á að hafa bakað sér skaðabótaábyrgð."

Hann sagði enn fremur að legið hefði fyrir að Straumur hefði ekki haft nægt laust fé til að opna mánudegi, eftir að skilanefnd tók hann yfir, og að einkaaðilar hefðu ekki verið tilbúnir að leggja honum til fé.

Grundvallarmunur á Spron, Saga og VBS

Ráðherra sagði varðandi Spron, Saga Capital og VBS að grundvallarmunur væri á Spron og tveimur þeim síðarnefndu. Spron hefði verið komið í þrot áður en bankarnir hrundu. Spron hefði  þá verið með mjög neikvætt eigið fé eða upp á 35 milljarða.

Icebank (Sparisjóðabankinn) hefði verið með neikvætt eigið fé upp á hundrað milljarða.

Spron og Sparisjóðabankanum hefði því ekki verið hægt að bjarga með sömu aðgerðum og Saga og VBS. Aðgerðir sem farið hefði verið í vegna þeirra síðarnefndu hefðu hins vegar verið aðgerðir sem talið var að myndu duga.