Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, telur að ríkið eigi framvegis að eiga hlut í íslenskum bönkum.

Þetta kom fram í viðtali við Björgvin í Kastljósi RÚV í kvöld.

Björgvin telur einnig að hugsanleg skilyrði sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kann að setja fyrir lánveitingu til Íslands verði mjög sveigjanleg, vegna þess að Ísland er þróað og auðugt land með traustar undirstöður.

Hann sagði einnig að sér sýndist á tillögum skilanefnda bankanna að mögulegt verði að bjarga hluta sjóðasparnaðar almennings í bönkunum.

Bankarnir einkavæddir á ný

„Sá tími kemur örugglega að einhver hluti þeirra verður settur í einkarekstur, þegar þessi fjármálakreppa er yfirstaðin í heiminum og markaðir hafa náð jafnvægi,“ sagði Björgvin aðspurður hvort hann teldi bankana verða einkavædda aftur.

„Ég held að við séum að upplifa tíma þar sem samfélagsrekstur kemur inn á nýjan leik. Norðmenn hafa þann háttinn á að ríkið á þriðjung í öllum fjármálastofnunum og ég sé fyrir mér að í framtíðinni verði ríkið með hlutdeild í rekstri banka hér, það er eitt af því sem ég tel að eigi að skoða.“

Björgvin vildi ekki segja að einkavæðing bankanna á sínum tíma hafi verið mistök, hins vegar sagðist hann telja að mörg mistök hefðu verið gerð í því ferli. Í framtíðinni ætti að hafa að leiðarljósi að blanda einkarekstri og opinberum rekstri í bönkunum.

Seðlabanki ætti að fara hægt í sakirnar

„Ég held það hefði verið betra fyrir hann og Seðlabankann að fara hægar í sakirnar,“ sagði Björgvin þegar hann var inntur eftir skoðun sinni á viðtali Kastljóss við Davíð Oddsson sl. þriðjudag.

Hann vildi hins vegar ekki „leggja Bretum það til“ að þeir hafi sagt hitt og þetta vegna orða Davíðs.

Björgvin vildi ekki taka afstöðu til þess hvort skipta eigi um Seðlabankastjóra, en lagði áherslu á að fara verði heildstætt og heiðarlega yfir starfsemi eftirlitsstofnana að undanförnu og staðan skoðuð í framhaldi af því.