Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, fundaði í gær með Tsering Tashi, erindreka Tíbesku útlagastjórnarinnar vegna undirbúnings fyrir áformaða komu Dalai Lama til Íslands um mitt næsta ári.

Þetta kemur fram á vef viðskiptaráðuneytisins.

Tashi  gegnir stöðu sem samsvarar sendiherra útlagastjórnarinnar, fyrir Bretland, Írland, Norðurlöndin, Pólland og Eystrasaltsríkin.

Staða mannréttindamála rædd

Kom hann hingað til lands til að skoða aðstæður og fylgjast með undirbúningi fyrir fyrirlestur Dalai Lama. Til að nýta ferðina óskaði hann eftir að ræða við fulltrúa ríkisstjórnarinnar til að fá tækifæri til að kynna stöðu mannréttindamála í Tíbet.

Á fundinum ræddu ráðherrann og sendiherra útlagastjórnarinnar stöðu mála í Tíbet og hvað væri framundan í mannréttindabaráttu þeirra, og um fyrirhugaðan fund Lama á Íslandi í júlílok á næsta ári.