Ljóst er orðið að Ísland mun ekki taka upp evru sem gjaldmiðil nema það gangi fyrst í Evrópusambandi og er mikil þörf fyrir yfirvegaða umræðu um kosti og galla aðildar Íslands að Evrópusambandinu frá sem flestu sjónarhornum, sagði Björgvin G. Sigurðsson, á aðalfundi Samtaka verslunar og þjónustu sem haldinn var fyrr í dag.

„Enginn kemst hjá því að verða var við vaxandi umræðu um gjaldmiðlamál hér á landi. Hugmyndafræðin að baki evrunni er í raun samofin innri markaðinum enda veldur gengisáhætta auknum viðskiptakostnaði og er því óbein viðskiptahindrun. Nú er hins vegar ljóst að Ísland mun ekki taka upp evru sem gjaldmiðil nema það gangi fyrst í Evrópusambandið,” sagði Björgvin í ræðu sinni á fundinum.

Kvað hann SVÞ hafa hlutverki að gegna varðandi þessi mál og væri “beinlínis nauðsynlegt að þau láti sig þetta mikla álitamál varða.”

Mikilvægt að auka kvartanastjórnun

Ráðherra gerði m.a. að umtalsefni svonefnda þjónustutilskipun ESB og sagði nú unnið að innleiðingu hennar, og verði það ekki síðar en 29. desember 2009. Um væri að ræða málamiðlun eftir langt samningaferli en tilskipunin væri mikilvæg fyrir íslensk fyrirtæki að því marki sem þau skapa þeim möguleika til viðskipta við önnur lönd innan EES svæðisins á sambærilegum grundvelli og innlend þjónustufyrirtæki í viðkomandi löndum búa við.

Sama máli gilti um starfsemi útlendra þjónustufyrirtækja frá Evrópu á íslenskum markaði. Tilskipunin fæli í sér metnaðarfull áform og gerði ríkar kröfur til stjórnvalda að yfirfara og einfalda allar reglur í stjórnsýslunni sem varða starfsleyfi fyrirtækja og auka aðgengi að rafrænni afgreiðslu. Hún fæli einnig í sér að fyrirtæki og þeir aðilar sem stunda þjónustuviðskipti  verða að gera ráðstafanir til þess að efla traust neytenda til þess að stunda við þá viðskipti.

„Þannig ber aðilum er selja þjónustu samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar að sjá til þess að fullnægjandi upplýsingar séu aðgengilegar fyrir neytendur um öll nauðsynleg atriði til þess að þeir geti treyst þeim aðilum er þeir eiga viðskipti við. Fyrirtækin skulu þannig gera grein fyrir því með hvaða hætti unnt sé að leggja fram kvartanir þegar að eitthvað fer úrskeiðis í viðskiptum þeirra. Það er mikilvægt að stórefla hér kvartana-stjórnun og skilvirkni úrskurðarleiða en allt slíkt eykur traust neytenda og verður í framtíðinni forsenda þess að unnt sé að efla viðskipti yfir landamæri innan Evrópska efnahagssvæðisins,” sagði Björgvin.