Ríkið mun aðstoða Byr, Spron og Sparisjóð Keflavíkur við fyrirhugaða sameiningu með því að leggja til 20% af eiginfé segir viðskiptaráðherra.

Hann segir að sparisjóðirnir verði verndaðir með öllum tiltækum ráðum.

Þetta kom fram í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins (RÚV) í kvöld.

Eins og fram kom í vikunni er stefnt að sameiningu Byrs, Spron og Sparisjóðs Keflavíkur.

Í frétt RÚV kemur fram að sameinaðir yrðu sparisjóðirnir álíka stórir og nýja Kaupþing með um 30 útibú.

Í samtali við RÚV segir Björgin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra að honum lítist vel á sameiningahugmyndina.

Hann segir að ríkið hafi gefið fyrirheit með neyðalögum um að við tilteknar aðstæður myndi ríkið koma með 20% ofan á eigin fé sparisjóðanna.

„Við það verði staðið í þessu tilfelli og Björgvin segist vongóður og bjartsýnn á að það takist að tryggja ágæta stöðu sparisjóðanna,“ segir í frétt RÚV.

„Þessi vilji til sameiningar gefi fyrirheit um að það takist að vernda og viðhalda sparisjóðunum.“   Þá segir Björgvin einnig að frá því að neyðarlögin voru sett og kerfisbankarnir féllu hafi verið unnið að því að fullu að koma í veg fyrir að fleiri bankar og fjármálafyrirtæki fylgdu á eftir.