Tvíhliða upptaka evru hér á landi er ólíkleg, að mati Björgvins G. Sigurðssonar viðskiptaráðherra. Hann segir á vef sínum, björgvin.is, að umrædd leið sé tæknilega fær, en pólitískt ólíkleg. Viðskiptaráðherra segir það vel til fundið hjá Geir H. Haarde forsætisráðherra að vísa málinu til Evrópunefndar stjórnarflokkanna.

Björgvin segir á vef sínum að engin stór skref verði stigin í Evrópumálum nema um það skapist bærilega breið samstaða á vettvangi stjórnmálanna. „Ég hef oft sagt að mestu skipti að Samfylking og Sjálfstæðisflokkur leiði þetta stærsta hagsmunamál Íslendinga sameiginlega til lykta. Líklega mun svo verða með tímanum. Flokkarnir tveir finni taktinn sameiginlega í þessum málum þó það taki eðlilega tíma og var utan stjórnarsáttmála fyrir ári. Enda hefur deiglan í þessum málum verið mikil síðan þá“

Björgvin gerir síðan Evruútspil Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra að umtalsefni. „Upptaka Evru með samþykki ESB án aðildar er ólíkleg. Hún er tæknilega fær en pólitísk ólíkleg vegna eindreginnar afstöðu ESB um að aðild að myntbandalagi komi í kjölfar aðildar að bandalaginu sjálfu. Skýr og rökrétt afstaða og einhverskonar aðild að myntkerfinu, EMR II hugsanlega líkt og Danir, komi ekki til álita fyrr en eftir að sótt hefur verið um aðild að ESB.“

Viðskiptaráðherra bætir því þó við að þetta þurfi að kanna formlega. „Því var það gott hjá forsætisráðherra að beina því formlega til Evrópunefndar að kanna málið. Klára í eitt skipti fyrir öll. Þá er það frá og næsta skref hægt að taka.“

Sjá nánar grein Björgvins hér .