Ekki er útlit fyrir að skuldir ríkissjóðs aukist að ráði þótt Fjármálaeftirlitið hafi tekið yfir Straum, að sögn Gylfa Magnússonar viðskiptaráðherra. Hann segir að það hafi verið  ljóst undir lok síðustu viku hvert stefndi. „Bankinn fékk frest eins lengi og hægt var til að bjarga sínum málum," segir Gylfi í samtali við Viðskiptablaðið.

Fjármálaeftlirlitið tók yfir Straum í nótt. Gylfi segir að það hafi ekki komið óvart. „Það lá fyrir seint á síðasta ári að staða Straums væri erfið. Þeir töpuðu miklu þá. Þeir hafa hins vegar lifað fram til þessa og menn voru með einhverja von um að þeir gætu lifað áfram. Svo kom í ljós að það gerðist ekki."

Ríkið ábyrgist innstæður fagfjárfesta

Nú væri bankinn farinn í þrot. „Þá tekur við ferli sem menn eru farnir að þekkja. Það er reynt að gera sem mest úr eignunum til að borga sem mest af kröfunum. Það ferli er allt of stutt komið til að hægt sé að leggja mat á hvað líklegt sé að komi út úr því." Sú vinna væri með öðrum orðum rétt að hefjast.

Þegar hann er spurður hvort skuldir ríkissjóðs muni aukast við þetta svarar hann: „Ekki er útlit fyrir að þær aukist að ráði því bankinn hefur ekki starfað með neinni sérstakri ábyrgð ríkisins. Þá veit ég ekki til þess að ríkið hafi átt neinar umtalsverðar kröfur á bankann. Það ábyrgist hins vegar innstæður í þessum banka eins og öðrum. Vonir standa til að eignir dugi vel fyrir því."

Hann segir að almenningur hafi ekki átt innstæður í bankanum heldur nokkrir fagfjárfestar. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins eru þeir um áttatíu. (Leiðrétt: Áður var talað um ellefu og tuttugu en eftir því sem næst verður komist eru þeir fleiri).

Dótturfélögin lifa sjálfstæðu lífi

Skilanefnd hefur tekið yfir rekstur Straums en starfsemi bankans er í raun og veru hætt. Gylfi segir að ákveðinn rekstur verði að halda áfram til að „reyna að gera sem mest fé úr eignunum og kortleggja stöðuna," segir hann.

Straumur er einnig með starfsemi í öðrum löndum, þ.e.a.s. í Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi, Tékklandi, Póllandi og í Bretlandi og segir Gylfi að um þá starfsemi gildi hið sama og áður, þ.e.a.s. sé um dótturfélög að ræða, þá lifi þau sjálfstæðu lífi og fara ekki sjálfkrafa í þrot þótt móðurfélagið fari í þrot.

Í skilanefnd Straums eru:  Reynir Vignir, formaður, löggiltur endurskoðandi. Kristinn Freyr Kristinsson, löggiltur endurskoðandi. Arna Guðrún Tryggvadóttir, löggiltur endurskoðandi. Elín Árnadóttir, lögfræðingur (HDL). Og Ragnar Þórður Jónasson, lögfræðingur (HDL).