Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra hefur sagt sig úr stjórn félagsins Norðurstígur ehf. og afsalað sér prókúruumboði hjá félaginu.

,,Þetta er smáfyrirtæki sem er í eigu fjölskyldu konu minnar og á þarna gamalt hús með þremur íbúðum. Ég var í stjórn þarna áður en ég varð ráðherra og svo vannst mér ekki tími til að segja mig úr stjórninni fyrr en núna í vor," sagði Gylfi í samtali við Viðskiptablaðið.

- Þér hefur þótt rétt að segja þig úr þessu?

,,Ég taldi ekki rétt að sýsla með þetta samhliða því að vera ráðherra,“ sagði Gylfi en hann var annar tveggja prókúruhafa félagsins. Á vef Alþingis um fjárhagslega hagsmuni og trúnaðarstörf utan þings kemur fram að hann er formaður stjórnar Norðurstígs ehf. sem á og rekur fasteign við samnefnda götu. Tekið er fram að starfið sé ólaunað.