Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, segir ekki hægt að útiloka beitingu lögbundins kynjakvóta, hafi fyrirtæki í landinu ekki sjálf frumkvæði að því að auka hlut kvenna í stjórnum og áhrifastöðum í íslensku viðskiptalífi. Þetta kom fram í erindi ráðherra fyrr í dag á hádegisverðarfundi LeiðtogaAuðar og FKA.

Ráðherra segir brýnt að hvetja fyrirtæki til að taka afstöðu um fjölgun kvenna í stjórnum og stjórnunarstöðum og megi t.d. verðlauna fyrirtæki sem náð hafa árangri á þessu sviði, með því að birta auglýsingar þar sem fram kemur hvaða fyrirtæki standa sig vel og svo framvegis. Þá sagði hann virka umræðu um kosti slíkrar fjölgunar geta smám saman leitt til að hlutfall kvenna í þessum stöðum aukist. Hann muni beita sér fyrir að árangur náist á þessu sviði.

Kynjakvóti ekki fyrsta skrefið

„Það er hins vegar æskilegast að fyrirtæki sýni frumkvæði í að jafna kynjahlutföll í stjórnum og meðal æðstu stjórnenda, en afskipti löggjafans eru þó ekki útilokuð sé ljóst að ekkert annað virki,” segir Björgvin. „Þá mundi ég telja að lögfesting á kynjakvóta væri ekki fyrsta skrefið heldur væri fyrst hægt að lögfesta upplýsingaskyldu fyrirtækja um nöfn, stöðuheiti og ábyrgðarsvið stjórnarmanna og æðstu stjórnenda fyrirtækja, en slík upplýsingagjöf þekkist víða erlendis. Slíkt stuðlar bæði að því að fyrirtæki verði í auknum mæli meðvituð um skipun í stjórnir og ábyrgðarstöður auk þess sem slíkt auðveldar öflun gagna um kynjahlutföll stjórnar og stjórnenda í fyrirtækjum. Ef ljóst þykir að ekkert annað dugar er ekki hægt að útiloka beitingu lögbundins kynjakvóta.”

Konur í 8% stjórnarsæta

Ef litið er til skiptingar kynjanna í stjórnum 100 stærstu íslensku fyrirtækjanna árið 2007 kemur í ljós að konur skipa aðeins 8% stjórnarsætanna eða 32 af 408 stjórnarsætum. Árið 2005 var þetta hlutfall 12%. Engin kona er í stjórn 71% fyrirtækjanna. Tólf fyrirtæki á listanum eru með konur í þriðjungi stjórnarsæta eða meira. Konur voru í tæplega 8% stjórnarsæta af þeim fyrirtækjum á listanum sem skráð eru í OMX (Kauphöll). Engin kona gegndi stjórnarformennsku í þeim.