„Við vissum að Landsbankinn hafði óskað eftir þrautarvaraláni til Seðlabankans en afhverju bankinn veitti það lán ekki verður hann sjálfur að svara," segir Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra, spurður út í það hvort hann hafi - fyrir yfirtöku íslenska ríkisins á Landsbankanum - haft vitneskju um 200 milljóna punda tilboð breska fjármálaeftirlitsins (FSA).

Þegar Björgvin er aftur spurður hvort honum hafi á þessum tíma ekki verið kunnugt um fyrrgreint tilboð FSA svarar hann: „Mér voru ekki kynntar forsendur þessarar lánsbeiðni."

Björgólfur Thor Björgólfsson sagði í Kompás-þætti Stöðvar 2 fyrr í vetur að degi áður en neyðarlög voru sett hér á landi hafi Bretar boðist til að taka Icesave-reikninga Landsbankans undir breska ábyrgð á fimm dögum gegn 200 milljóna punda tryggingu.

Björgólfur Thor greindi frá því  í sama þætti að óskað hafi verið eftir fyrirgreiðslu frá Seðlabankanum, með veði í íslenskum og þýskum ríkisskuldabréfum, en þeirri beiðni hafi verið hafnað á mánudeginum, þ.e.a.s. á þeim sama degi og neyðarlögin voru sett. Nánar tiltekið kl. 12.30 - eða hálftíma eftir að tilboð FSA rann út.

Þurfti erlendan gjaldeyri

Ásgeir Friðgeirsson, talsmaður Björgólfsfeðga, segir í samtali við Viðskiptablaðið að beiðni Landsbankans hafi falist í fyrirgreiðslu varðandi erlendan gjaldeyri. „Það er vitað að Landsbankinn hefði getað farið með heilu gámana af lausafé í íslenskum krónum þarna út en það þurfti gjaldeyri. Og þá fyrirgreiðslu varð að fá í Seðlabankanum.”

Ásgeir segir að Landsbankinn telji að hann hafi komið upplýsingum um umrætt tilboð FSA til ríkisstjórnarinnar og viðeigandi stofnana. Hann vill aðspurður ekki segja nánar til hvaða aðila innan ríkisstjórnarinnar hann sé að vísa.

Seðlabankinn kannast ekki við tilboð FSA

Fjármálaráðherra, Árni M. Mathiesen, sagði á Alþingi í vikunni að honum hefði ekki verið kunnugt um tilboð FSA. „Nei, ég veit ekki um svona tilboð. Ég hef ekki fengið svona tilboð, veit ekki til þess að aðrir hafi fengið það heldur."

Hvorki Seðlabankinn né Fjármálaeftirlitið hafa svarað fyrirspurn Viðskiptablaðsins um þetta efni í vikunni. Breska fjármálaeftirlitið vildi heldur ekki gefa Viðskiptablaðinu upplýsingar um  málið þegar eftir því var leitað.

Í yfirlýsingu frá Seðlabankanum eftir Kompás-viðtalið við Björgólf Thor segir hins vegar að sú fullyrðing Björgólfs Thors um að 200 milljóna punda fyrirgreiðsla bankans hefði leyst allan vanda Landsbankans á þeim tíma - stæðist ekki.

„Tilefni beiðninnar í bréfi Landsbankans 6. október var útstreymið af innlánsreikningum. Ekki var minnst á flýtiafgreiðslu breska fjármálaeftirlitsins," segir meðal annars í yfirlýsingunni, sem sjá má í heild hér.