*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 30. desember 2007 14:10

Viðskiptaráðherra vill efla eftirlitsstofnanir

Ritstjórn

Viðskiptaráðherra telur að efla þurfi starfsemi Samkeppniseftirlitsins og Fjármálaeftirlitsins enn frekar þó fjárframlög til þeirra aukist annars vegar um 30% og hinsvegar 50% prósent á árinu 2008. Hann boðar til fundaherferðar um neytendamál víða um land í vor. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV í dag.

Viðskiptaráðherra segir mörg stór verkefni liggja fyrir á nýju ári - starfshópur um gjaldtöku fjármálafyrirtækja skili niðurstöðum sínum um áramót. Þar er ýmislegt athyglisvert sem mun skila sér í löggjöf, segir ráðherra.

Starfshópar um sparisjóði, samvinnufélög og erlenda fjárfestingu eiga einnig að skila niðurstöðum fljótlega. Þá er skýrsla þriggja háskólastofnana um neytendamál væntanleg í vor og frumvörp, byggð á skýrslunni, verða lögð fram á haustþingi. Björgvin segir þegar hafið að byggja upp neytendapólitík en að beðið verði eftir skýrslunni til frekari starfa.

Björgvin segist vonast til að stimpilgjöld af fasteignalánum verði afnumin sem allra fyrst, nú þegar hægt hefur verulega á fasteignamarkaði að því er segir á fréttavef RÚV.