Ríkisstjórnin hefur ákveðið að móta nýja stefnu um upplýsingasamfélagið fyrir árin 2008-2011 sem endurspegli nýjar áherslur ríkisstjórnarinnar og byggi m.a. á stefnuyfirlýsingu hennar og pólitískum áherslum stjórnarflokkanna, að því er fram kom í máli Björgvins G. Sigurðssonar, viðskiptaráðherra, á fundi Icepro í gær, samstarfsvettvangi atvinnulífs og opinberra aðila um rafræn viðskipti.

Björgvin sagði viðskiptaráðuneytið þurfa að setja fram markmið um samræmt og skilvirkt umhverfi rafrænna viðskipta, byggt á evrópskum og alþjólegum stöðlum á Íslandi. Þróunin hérlendis og í Evrópu væri í átt til rafrænna viðskipta og þyrftu Íslendingar að gæta þess að dragast ekki aftur úr í þeim efnum.

„Hagræðingin sem felst í rafrænum viðskiptum getur skipt sköpum í aukinni samkeppnishæfni Íslands,” sagði Björgvin. „Með auknu flæði viðskipta milli landa er nauðsynlegt að samræma umhverfi rafrænna viðskipta. Til þess að rafræn viðskipti milli Íslands og annarra landa verði almenn og  skilvirk er mikilvægt  að nýta alþjóðlega og evrópska staðla í  íslensku umhverfi.”

Öll viðskipti brátt rafræn

Rafræn viðskipti hefðu gjörbylt hefðbundnum viðskiptaháttum, þó svo byltingin væri í raun rétt nýhafin. „Rafræn viðskipti skapa ný sóknarfæri fyrir fyrirtæki og neytendur,” sagði Björgvin.

Hann kvað menn almennt þeirrar skoðunar að hugtakið rafræn viðskipti hverfi innan nokkurra ára þar sem þau verði reglan en ekki undantekningin. Þá verði ekki lengur gerður greinarmunur á viðskiptum og rafrænum viðskiptum.