Eins og greint var frá í morgun sagði breska blaðið Financial Times, og hafði eftir Gylfa Magnússyni viðskiptaráðherra, að ekki stæði til að ríkisstjórnin hefði hætt við að leita til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna ákvörðunar Breta um að beita hryðjuverkalögunum til að frysta eignir íslenskra banka í haust.

Í tilkynningu frá viðskiptaráðuneytinu sem send var eftir hádegi í dag vegna þessa máls kemur fram að engin breyting hefur orðið á fyrirhuguðum stuðningi ríkisstjórnarinnar við hugsanlega málshöfðun skilanefnda Landsbankans og Kaupþings á hendur breska ríkinu. Íslenska ríkið yrði hins vegar ekki beinn aðili að slíkum málum.

Þá segir jafnframt:

„Fyrri ríkisstjórn ákvað jafnframt að kanna aðra möguleika til málshöfðunar, m.a. fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Núverandi ríkisstjórn hefur ekki breytt þeirri ákvörðun og enga ákvörðun tekið um að höfða slíkt mál fyrir þeim dómstóli eða öðrum.“

Financial Times hefur þó eftir Gylfa, aðspurðum um málið að ekki standi til að höfða mál.

„Það liggja engar áætlanir fyrir um að íslenska ríkisstjórnin höfði mál vegna þessa,“ hefur FT eftir Gylfa. (orðrétt úr FT: „There are no plans for the Icelandic government to go to court over this.“)

Þorfinnur Ómarsson, upplýsingafulltrúi viðskiptaráðuneytisins staðfestir þessi orð Gylfa í samtali við Viðskiptablaðið og segir að enginn liggi engin áform fyrir um að höfða mál. Hann útilokar þó ekki á grundvöllur fyrir málshöfðun verði kannaður síðar.

Að öðru leyti vitnar Þorfinnur í tilkynningu ráðuneytisins þar sem fram kemur að fyrri ríkisstjórn hafi fengið bresku lögmannsstofuna Lovells til að gefa álit á hugsanlegri málshöfðun íslenska ríkisins gegn breskum stjórnvöldum vegna aðgerða Breta.

„Að mati Lovells voru engar líkur á að slík málshöfðun myndi verða til þess að íslenska ríkinu yrðu dæmdar skaðabætur. Að fenginni þeirri niðurstöðu ákvað fyrri ríkisstjórn að höfða ekki mál gegn Bretum fyrir breskum dómstólum vegna þessa. Núverandi ríkisstjórn hefur ekki breytt þessari ákvörðun,“ segir í tilkynningunni.

Þorfinnur segir það misskilning blaðamanns er þessum tveimur atriðum sé ruglað saman, þ.e. málshöfðun fyrir breskum dómsstólum annars vegar og Mannréttindadómsstóli Evrópu hins vegar.

Hann segir ummæli Gylfa ekki útiloka málshöfðun fyrir mannréttindadómsstólnum í framtíðinni jafnvel þótt fyrirsögn og umfjöllun Financial Times gefi það til kynna. Til að það gerist þurfi hins vegar að vera búið að höfða mál annars staðar.

Sjá frétt FT í heild sinni.