Viðskiptaráðuneytið hefur í dag rætt við alla bankastjóra hinna nýju ríkisbanka til að tryggja að þjónusta við viðskiptavini bankanna sé í samræmi við tilmæli ríkisstjórnarinnar um frystingu myntkörfulána.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá viðskiptaráðuneytinu í dag.

Þar kemur fram að ríkisstjórnin hefur beint þeim tilmælum til hinna nýju ríkisbanka að þeir frysti afborganir og vexti af myntkörfulánum tímabundið, sé þess óskað, þar til eðlileg virkni kemst á gjaldeyrismarkaðinn. Ennfremur að ekki verði sérstakrar greiðslu krafist af viðskiptavinum vegna þessa.

Þá mælist ríkisstjórnin til þess að bankarnir krefji viðskiptavini ekki um frekari tryggingar né láti nýtt greiðslumat fara fram vegna tímabundinnar frystingar á myntkörfulánum.

„Í ljósi framangreinds er athygli viðskiptavina nýju bankanna vakin á því að þeir geti óskað eftir frystingu á myntkörfulánum, óháð efnahag sínum,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að tilmælunum var því einnig beint til ríkisbankanna að þeir bjóði viðskiptavinum sínum í greiðsluerfiðleikum upp á sams konar úrræði og Íbúðalánasjóður hefur gert.

„Þess er vænst að önnur fjármálafyrirtæki veiti sömu fyrirgreiðslu,“ segir í tilkynningunni.

Að lokum er bent á að fjármálaráðherra mun á næstu dögum leggja fram á Alþingi frumvarp til breytingar á lögum um stimpilgjöld, þar sem lagt er til að skjöl sem gefin eru út á tímabilinu frá gildistöku laganna til 1. janúar 2009 og fela í sér breytingar á skilmálum á fasteignaveðskuldabréfum einstaklinga verði undanþegin greiðslu stimpilgjalda